top of page
Screenshot 2020-09-22 at 15.22.09.png
STRAUMUR 

SAMKEPPNI UM SÖGU- OG TÆKNISAFN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Innviðir borga og það net sem borgarlíf byggir á er flestum hulið og fæstum hugleikið í dagsins amstri. Meginhugmyndin í meðfylgjandi tillögu er að bregða ljósi á þau öfl sem að baki innviðauppbyggingu liggja, auka skilning á þætti veitureksturs í borgarþróun og borgarlífi á sama tími og stefnt er á að vekja áhuga á vísindum, tækni og fjölbreyttum iðnstörfum. Hulunni er svipt af veitukerfi borgarinnar, netinu sem liggur undir niðri, og tengingar þess við mynstur og hjartslátt borgarinnar eru gerðar sýnilegar.

Við nálgun á sögusýningu og hönnun ytri rýma er leitast við að skapa andrúm í góðu nábýli við náttúru Elliðaárdalsins – vöggu veitureksturs í Reykjavík og vinsæls útivistar- og laxveiðisvæðis. Leitast er við að draga fram gæði dalsins og búa til stað sem gott er að dvelja á, fræðast og njóta útivistar. Mannvirki OR, tengingar við Árbæjarsafn og gönguleiðir í Elliðárdal eru hugsuð sem ein heild.

Með efnistökum og framsetningu á sögusýningu er leitast við að auka skilning ólíkra aldurshópa á þætti innviða, náttúru og vísindahugsunar. Markmiðið með því að draga fram annars vegar borgar- og tæknisögu og hins vegar nýsköpun og rannsóknir í samtímanum er að varpa jákvæðu ljósi á verkefnin framundan og hvetja til þátttöku í nýrri hugsun og nýrri nálgun í sambýli manna, vísinda og náttúru. Sögusýningin á sér að mestu stað í tveimur húsum, straumskiptastöðinni og gömlu rafstöðinni, en sýningin teygir anga sína og efni yfir í rýmin milli húsanna, útisvæði og kaffihús. Á útisvæðum og gönguleiðum er vakin athygli á þeirri miklu sögu sem býr í dalnum og gerð grein fyrir merkilegum náttúrufyrirbrigðum og lífríkinu allt um kring. Leikur með orku og afl er allsráðandi á leiksvæðum.

bottom of page