Dvergsreitur
MILLI HAFS OG HAMARS
Sagt er að fegurðarskynjunin hafi margar víddir, ekki bara það sem fyrir augu ber, heldur samhengi hlutanna og hvernig þeir kallast á við tíma og stað.
Timburhúsabyggðin undir Hamrinum er eitt af sérkennum svæðisins. Húsin standa flest á hlöðnum eða steyptum sökkli til að mæta jörðinni sem hallar frá Hamri að hafi. Ofan á sökklunum hvíla húsin, í fínlegum mælikvarða eins og til að minna okkur á að hús eru byggð fyrir manneskjur. Gamla byggðin mætir himninum með léttleika sem fleytir vindinum yfir húsþökin um leið og hún veitir birtu niður í götur og húsasund. Á sama stað, á öðrum tíma, voru byggð steinsteypt hús, einnig fyrir fólk en líka drottni til dýrðar og saman myndar þetta hina fullkomnu heild. Í allt þetta sækir tillagan sinn innblástur.
Byggður er manngerður hamar sem stallast upp að hæsta hluta lóðar, hleðsla úr “gabbion” vírgrindum sem vísa um leið í hlaðna sökkla fyrri tíma en þó með tækni nútímans. Grindurnar eru fylltar með efni staðarins, að stærstum hluta sprengigrjóti af lóðinni en inn á milli er komið fyrir einstaka völdum steypubrotum úr núverandi húsi (Dvergnum) til að vísa í það sem var og minna á að öll hús bera í sér merka sögu, einnig þau sem hundsuðu smágerðan mælikvarða þess sem fyrir var og þurfa nú að víkja fyrir nýrri hugsun.
Í sökklinum eru þjónusturými á jarðhæð, sem snúa að Lækjargötu og Suðurgötu en ofan á honum er sameiginlegur garður íbúanna. Upp úr sökklinum rísa steinsteypt hús með flötu þaki sem mynda þakgarða fyrir “bárujárnsbyggingar sem stallast upp “hamarinn”. Í sökklinum eru einnig rými sem fylgja hverri íbúð; geymslur, sorpflokkun og þvottahús eða “laundromat” sem er opið almenningi um leið og það þjónar íbúunum. Rýmið skal boðið út til þjónustuaðila til að selja kaffi og veitingar en mun skila til baka líflegri götumynd og auknu verðmæti svæðisins.
Hin nýja byggð er fjölbreytt í efnisvali og að gerð og verður áhersla á vistvænar og staðbundnar lausnir. Steinsteyptir húshlutar sem múraðir eru að utan og málaðir í hvítum lit, rísa upp úr sökklinum og er teflt saman við létt timburhús klædd bárujárni. Timburhúsin eru óstýrilát og snúa sér að sól og útsýni eftir hentugleik. Uppbrot þeirra og þakform skapa skjól fyrir ríkjandi vindátt í sameiginlegum garði og einkagörðum sem einnig snúa vel við sólu. Hugað verður að aðgengi á stölluðum útisvæðum sem tengd verða saman með skábrautum og tröppum. Torg og leiksvæði verður fléttað saman í eina samfellda heild.
Aðalaðkoma er frá Lækjargötu að þremur stiga- og lyftuhúsum sem einnig er hægt að nálgast frá bílakjallara. Inngangarnir eru í vari fyrir rigningaráttinni. Þaðan er hægt að komast á garðhæðina eða beint að íbúðum við Lækjargötu. Bílastæði eru samsíða Lækjargötu og er lagt til að dregið verði úr umferðarhraða með yfirborðsmeðhöndlun götunnar. Gert er ráð fyrir einstefnu bíla frá Suðurgötu inn að þjónustusvæðinu við Lækjargötu. Akstur í bílakjallara er inn frá Suðurgötu og út að Brekkugötu. Bílakjallari er undir syðsta hluta lóðar en aðkoma að honum er um opið rými undir garði.
Íbúðir eru 18 talsins og fjölbreyttar að stærð fyrir mismunandi fjölskyldustærðir og einstaklinga, sem saman búa til samfélag sem er margbreytilegt. Íbúðirnar eru á bilinu 38 m2 til 128 m2.
A arkitektar
A arkitektar
A arkitektar