Hönnunarsamkeppni um nýbyggingu fyrir Alþingi
Icelandic Parliamentary Offices
Sagt er að fegurðarskynjunin hafi margar víddir, ekki bara það sem fyrir augu ber, heldur samhengi hlutanna og hvernig þeir kallast á við tímann.
Með fornleifauppgreftri leitast fræðin við að varpa ljósi á söguna, fasa fyrir fasa. Fjarvera efnisins myndar rúm fyrir ný rými sem skírskota í það sem var. Efnið leggur grunn að byggingarefni nútímans sem þó ber í sér fortíðina. Lag fyrir lag skapa jarðsteypuveggir umgjörð um störf þingmanna og starfsmenn þingsins. Hér og þar mótar fyrir munum sem áður hvíldu djúpt í jörðu því veggirnir taka náttúrulega við varðveisluhlutverki hinna ólíku menningarminja.
Meginform nýbyggingarinnar er hliðrað frá lóðamörkum Tjarnargötu til að beina sjónum að uppgreftrinum. Um leið á sólin greiðari leið milli hárra húsveggja og niður í almenningsrými með sögulega skírskotun. Með þessari hliðrun opnast Tjarnargata að Vonarstræti og ráðhúsinu. Undir rúmtaki massans tengjast allar byggingar þingsins saman í eina heild. Heild sem uppgröfturinn fléttar saman við kjallara húsa Kirkjustrætis en þau opnast að sólríkum ljósgörðum til suðurs. Garðarnir veita einnig birtu inn í núverandi tengirými alþingisskálans og færa rýminu nánd við umheiminn. Með þessum aðgerðum er talið óþarft að byggja við alþingisskálann á annari hæð. Ekkert er þó til fyrirstöðu að sú tenging komi sé þess þörf. Á götuhæð er hægt að ganga milli húsa um Þingmannastræti sem liggur samsíða Kirkjustræti og gefur suðurhlið gömlu húsanna nýja ásjónu. Við strætið er lítið torg sem er vettvangur samtals við þingmenn. Salur fyrir opna nefndarfundi er staðsettur við torgið og er hægt að opna þangað út við sérstök tilefni. Á torginu er gert ráð fyrir skúlptúr sem fjallar um tíma og rými. “Með himinn og jörð að leiðarljósi eru tvö rými staðsett á tveimur ólíkum stöðum. Fjarveran gefur svigrúm fyrir kynslóðirnar að upplifa hvor aðra.”
Tillagan leggur ríka áherslu á samtal milli arkitektúrs, myndlistar og fornleifafræði. Allt það sem fornleifauppgröfturinn skilaði okkur verður fundinn staður í eða við bygginguna. Stærri hlutum verður komið fyrir utandyra í tengslum við jarðsteypuveggi, minni gripum innandyra. Allt efni sem til er verður endurnýtt sem byggingarefni í gólf eða veggi.
Á fyrstu hæð er gert ráð fyrir sérstökum vegg fyrir listaverkaeign alþingis sem er vel við hæfi þar sem segja má að alþingishúsið hafi verið fyrsta sýningarrými landsins. Hér áður fyrr voru reglulega sýnd verk á sunnudögum á lofti Alþingishússins. Veggurinn verður vísun í þetta sýningarhald.
Á skrifstofuhæðum eru vinnurými aðskilin frá alrými með sýningarskápum sem hýsa munasafn alþingis og sækja innblástur í furðugripasöfn fyrr á öldum. Milli skrifstofa eru léttir veggir klæddir birkikrossviði.
Í þessari tillögu hafa mörk myndlistar og byggingarlistar að mestu verið afmáð. Mótun hugmyndafræði, efnisnotkun, sýningarrými í uppgreftri ásamt fleiru er afrakstur samvinnu listamanns og arkitekta.
Aðalinngangur er frá Vonarstræti auk þess sem inngangur er í nýbyggingu frá Kirkjustræti sem hýsa mun skrifstofur forseta alþingis. Starfsmannainngangur er frá Þingmannastræti. Á niðurgrafinni hæð undir byggingunni er gert ráð fyrir opnu sýningarrými, almenningsrými sem vísar í þá merku sögu sem svæðið býr yfir. Svæðið yrði unnið í náinni samvinnu við fornleifafræðing. Á jarðhæð er líkamsræktaraðstaða með heitum potti í tengslum við inngarð, eldhús auk annara stoðrýma. Á götuhæð er móttaka, fundarherbergi nefnda, fjölnotasalur og fleira. Skrifstofur eru staðsettar frá annari, þriðju og fjórðu hæð.
Á alþingi til forna trúðu menn að svörin lægju í náttúrunni.
Byggingin er úr svokallaðri jarðsteypu. Efnið á að vísa í þann jarðveg sem fjarlægður var af lóðinni þegar fornleifauppgröfturinn átti sér stað, í víðara samhengi íslensk jarðvistarlög. Þegar Alþingishúsið var byggt var eitt af markmiðunum að kenna Íslendingum nýja byggingaraðferð. Hér er alþjóðlega vottuð byggingaraðferð kynnt til sögunnar sem er umhverfisvæn enda unnið með það efni sem við eigum, jörðina. Einungis 5% af sementi er blandað við jarðveginn. Efnið er þjappað sem gefur því hörku sem er mun meiri en í steinsteypu. Þykkt útveggja er um sextíu sentimetrar, tvöfalt lag jarðsteypu með einangrun á milli. Þykkt efnisins gefur byggingunni sérstakt yfirbragð og liggja gluggar ýmist yst eða innst í gluggaopinu. Skurðflötur efnisins er fóðraður með stáli til að tefla hinu hnífskarpa efni við jarðvegginn. Láréttur stálprófíll myndar band sem aðskilur götuhæð frá skrifstofuhæðum og vísar um leið í hæðarskil á húsi Oddfellow við Vonarstræti. Stálið vísar í sögu staðarins sem iðnaðar og athafnasvæði. Í fasa fjögur í uppgreftrinum mátti finna brennsluofna, kolagrafir, og öll merki þess að unnið hefði verið járn og stál við landnám.
Byggingar nútímans hafa stundum tilhneigingu til að forðast skurðpunktinn við söguna, hafna fortíðinni og finna því sem var, stað í geymslum eða á söfnum. Gleyma þeim verkfærum sem byggingarlistin hefur yfir að ráða til að vísa aftur og fram í tíma. Í þessari tillögu er allt traust lagt á að byggingarefnið sjálft og að fjarvera efnisins úr uppgreftrinum miðli sögunni allt aftur í landnám.